Flaskan mín fríð
13.9.2008 | 08:55
sungu þeir strákrnir í Ríó Tinto fyrir allmörgum árum. En þeir óskuðu sér að það færi nú fljótlega að klárast úr flöskunni.
Svoleiðis hugarfar átta ég mig ekki á. Ég opnaði koníaksflösku í gærkvöldi og Dísa skvísa bauðst til að koma í heimsókn og hjálpa mér að klára.
Ég deili flestu með öðrum, en eldgömlu koníaki, sem ég keypti dýrum dómum í erlendri höfn, held ég fyrir sjálfan mig og hana nú.
Ég stapp þá tappanum aftur í og fór að sofa eftir að hafa fengið heimamyndband Baldurs Fjölnissonar birt á síðunni, í athugasemdakerfinu. Mig grunar að Baldur hafi fengið sér all hressilega neðan í því og farið þarmeð að gera einhverjar æfingar með ketti.
Ef vínið leikur menn grátt með þessum hætti fara nú að renna á mig steingrímur.
Annars er ágætt að vakna einstaka sinnum hress í sinni, hvorki þunnur né þykkur, rakur né blautur.
En hvað á maður að gera annað þegar gömlu vinirnir eru dánir eða fluttir til Spánar. Og félagsstarf okkar eldri borgara er sniðið að afa- og ömmuímyndum 19. aldar.
Ég er viss um að hundruður einstæðra eldri borgara sitja heima og láta sér leiðast. Ég kemst af með hjálp flöskunnar og tölvugarmsins sem sonur minn gaf mér og kenndi á síðast þegar hann kom til Íslands í heimsókn. Það var síðan nágranni minn sem kenndi mér á veraldarvefinn og þar sit ég flestum stundum og les.
Hvað hafa gamlir, einstæðir kallar eins og ég annað að gera við tímann? Ég ætla ekki að láta elli kerlingu (sjá mynd) taka mig baráttulaust og hana nú.
Flokkur: Kvennafar og fyllerí | Breytt s.d. kl. 09:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.