Merkilega gaman að enska tuðrusparkinu
13.9.2008 | 15:13
Voðalega leiddist mér í dag, fyrri hluta dags. Ég ákvað að reyna að vera edrú og ekki láta undan freistni Bakkusar, Díónysusar og hvað þeir heita nú allir.
Það entist nú ekki lengi. Ég átti erindi inní úthverfin og þar sem ég beið eftir strætisvagni vestur í bæ, óðfús að losna við austurbæjarpestina, varð ég skyndilega svangur og ákvað að fá mér að borða. En lítið gat maður nú notið matarins fyrir hávaða og látum, enda var hér um svokallaðan fótboltastað að ræða.
Ég lagðist því svo lágt að horfa á fótbolta án þess að KR væri að spila. Þarna voru tvo lið að spila og tók ágætis drengur sem sat þarna rétt hjá að sér að útskýra fyrir mér hvað væri í gangi. Ég man ekki hvað annað liðið hét en liðið sem vann heitir Liverpool.
Ég kom oft til Liverpool á árum áður; sigldi þangað með fisk á árum áður. Fyrst kom ég til Liverpool þegar ég var rétt nýorðinn sautján ára og var í öðrum eða þriðja túrnum mínum. Þetta var undir lok stríðsins. Við sigldum til Hebrides og laumuðumst þaðan til Liverpool, þar sem við stimpluðum og síðan til Fleetwood. Þá fóru skipsmenn gjarnan á næstu krá, versluðu ýmislegt sem til var og keyptu gjafir fyrir kærustur, vini og vandamenn heima. Ég var þá svo ungur, að ég hafði ekkert vit á öðrum konum en heimasætunum úr sveitinni. En skipstjórinn lét einn hásetann fara með mig og Sigga litla messagutta til klæðskera sem íslenskir sjómenn versluðu gjarnan við þar í borg. Þar fékk ég mín fyrstu alvöru spariföt. Karlinn var ágætur og seldi góða vöru ódýrt. Við fórum allir þangað, nema Palli vélamaður sem neitaði að skipta við fatajúða. Hann hafði víst verið í nazistahópi strákanna á árunum fyrir stríð. En síðan sigldum við heim og ég gat sent foreldrum mínum fallega hluta heim í sveitina. Ég held ég eigi enn einhvers staðar bréfið sem mamma sendi mér suður. Hún hafði aldrei áður átt svona fallegt hálsmen.
En afsakið þetta inngrip. Ég hef lifað tímann tvenna skal ég segja ykkur. Jedúddamía.
Í mínum huga er Liverpool ekkert meira en höfnin. Síðar lærði maður að meta góðu hlutina við Liverpool, t.d. góðan félagsskap á hafnarkránum. Þar fékk ég sífýlis í fyrsta en ekki síðasta skipti.
En aftur að fótboltanum. Ég hafði merkilega gaman að leiknum. Ég skal ekki fullyrða að ég muni halda með Liverpool, enda vil ég helst aðeins styðja lið í KR búningnum, en ég er kominn með smá taugar til þessa liðs, sem strákurinn þarna sagði að væri merkasta fótboltalið Englands.
Ég verð víst að trúa honum uns annað kemur í ljós.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þú ert góður karl Siggi ;)
Óskar Þorkelsson, 13.9.2008 kl. 15:18
Ekki laug pilturinn að þér nafni. Liverpool er nefnilega ekki bara merkilegasti fótboltaklúbbur Englands, heldur gervallrar heimsbyggðar. En þú skalt forðast að horfa á makkarónuboltann á Ítalíu, nema þú eigir erfitt með svefn. Það er ómögulegt að halda sér vakandi yfir þeim leiðindum.
Sigurður Sverrisson (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 15:21
Voðalega er þetta falleg frásögn, fyrir utan sífýsilið, hmmm.. sem kemur svona eiginlega eins og löðrungur í restina...Þið Karen Blixen eigið þá a.m.k. eitt sameiginlegt.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.9.2008 kl. 15:59
sífliss, sýfillis, sífysil .....Sýfilis .. átti að standa þarna, sem betur fer er ég ekki í æfingu að skrifa þetta orð!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.9.2008 kl. 16:06
Þakka öll.
Sigurður: Afsakaðu en nú skil ég ekki. Makkarónubolti? Ég þarf að spyrja einhvern hvað þetta merkir.
Jóhanna: Þakka. Já, ég fékk einhvern óþverra þarna forðum. En það er svona að vera sjóari í erlendum höfnum.
Sigurður Sigurðsson, 13.9.2008 kl. 16:25
Þú ert helvíti flottur edrú.
ágúst (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 17:55
Þakka allesammenhelagruppan eins og skáldið sagði en ég kann ekki að skrifa rétt. Ég kann því miður enga sænsku. En jæja.
Auður, ég er friðsemdarmaður dags daglega, en læt stundum ýmislegt vaða á 2. eða 3. flösku. Ég meina þó aldrei neitt illt með því, nema kannski í einstökum undantekningartilvikum (þá kemur Fótboltafélagið Valur yfirleitt fyrir eða stjórnmálaflokkur af Hverfisgötunni - en þá er ég oftast að þykjast vera vondur kall). Ég kláraði nú ekki úr flöskunni. Ég var eiginlega það eftir mig eftir allan þennan hasar.
En ég fékk þó símtal frá gömlum sjóarafélaga. Hann býr í Eyjum og sagði að þessi bloggvitleysa í mér væri ein allra vinsælasta bloggsíðan í Eyjum. Ég hef löngum sagt að Eyjamenn væru svoldið siggagamlískir, eða kannski hef ég siglt með það mörgum Eyjamönnum að ég hefi tekið inn á mig talsmáta Eyjamanna, hins ágætasta fólks.
Anna: ég hef voðalega lítið vit á erlendu tuðrusparki og er það óplægður akur. Hélt einna helst með Newcastle því þeir spiluðu eða spila í KR búningnunum. Smá áhuga á Rússaliðinu, enda á ég margar góðar minningar frá siglingum til Rússahafna. Aðallega tengdar vodka að vísu.
En eina Rauða ljónið sem ég þekki beinlínis er Bjarni Felixson, skemmtilegasti sjónvarpsþulur í sögu Ríkissjónvarpsins, enda KRingur. Ég sá meira að segja boltafar á höfði hans þegar hann skoraði þetta fræga mark með skalla. Ég var þá í landi. Ég held það hafi verið Ellert sem tjáði mér og öðrum, að Bjarni hafi verið svo ánægður með markið sem hann skoraði með skalla að hann hafi sett poka yfir rauða hausinn sinn í sturtunni til að skallaboltafarið myndi haldast, enda þá var rigning ef ég man rétt á vellinum. Maður reyndi samt að tala sem minnst við Ellert sem var framsóknarmaður í Íhaldsflokknum og eiginlega á þingi fyrir báða aðila. Hann þroskaðist reyndar seint, en gekk í Samfylkinguna okkar sósíalista á gamals aldri. Dálítið skondið þar eð hann hafði nú uppi ýmis orð um okkur kommana þegar við báðir vorum yngri, mikið yngri.
Ég fór líka einstaka sinnum á samnefnda bjórkrá hvar KRingar komu stundum saman til að fagna í gamla daga.
En nei, gyðingakaupmaður þessi hét Cohen eða eitthvað svoleiðis. Minnir að það hafi staðið á skilti yfir búðinni. Annars er ég farinn að gleyma, man reyndar miklu betur ýmsa hluti eftir nokkra tvöfalda.
Sigurður Sigurðsson, 14.9.2008 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.