Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Merkilega gaman að enska tuðrusparkinu

poolVoðalega leiddist mér í dag, fyrri hluta dags. Ég ákvað að reyna að vera edrú og ekki láta undan freistni Bakkusar, Díónysusar og hvað þeir heita nú allir.

Það entist nú ekki lengi. Ég átti erindi inní úthverfin og þar sem ég beið eftir strætisvagni vestur í bæ, óðfús að losna við austurbæjarpestina, varð ég skyndilega svangur og ákvað að fá mér að borða. En lítið gat maður nú notið matarins fyrir hávaða og látum, enda var hér um svokallaðan fótboltastað að ræða.

Ég lagðist því svo lágt að horfa á fótbolta án þess að KR væri að spila. Þarna voru tvo lið að spila og tók ágætis drengur sem sat þarna rétt hjá að sér að útskýra fyrir mér hvað væri í gangi. Ég man ekki hvað annað liðið hét en liðið sem vann heitir Liverpool.

Ég kom oft til Liverpool á árum áður; sigldi þangað með fisk á árum áður. Fyrst kom ég til Liverpool þegar ég var rétt nýorðinn sautján ára og var í öðrum eða þriðja túrnum mínum. Þetta var undir lok stríðsins. Við sigldum til Hebrides og laumuðumst þaðan til Liverpool, þar sem við stimpluðum og síðan til Fleetwood. Þá fóru skipsmenn gjarnan á næstu krá, versluðu ýmislegt sem til var og keyptu gjafir fyrir kærustur, vini og vandamenn heima. Ég var þá svo ungur, að ég hafði ekkert vit á öðrum konum en heimasætunum úr sveitinni. En skipstjórinn lét einn hásetann fara með mig og Sigga litla messagutta til klæðskera sem íslenskir sjómenn versluðu gjarnan við þar í borg. Þar fékk ég mín fyrstu alvöru spariföt. Karlinn var ágætur og seldi góða vöru ódýrt. Við fórum allir þangað, nema Palli vélamaður sem neitaði að skipta við fatajúða. Hann hafði víst verið í nazistahópi strákanna á árunum fyrir stríð. En síðan sigldum við heim og ég gat sent foreldrum mínum fallega hluta heim í sveitina. Ég held ég eigi enn einhvers staðar bréfið sem mamma sendi mér suður. Hún hafði aldrei áður átt svona fallegt hálsmen.

flagukEn afsakið þetta inngrip. Ég hef lifað tímann tvenna skal ég segja ykkur. Jedúddamía.

Í mínum huga er Liverpool ekkert meira en höfnin. Síðar lærði maður að meta góðu hlutina við Liverpool, t.d. góðan félagsskap á hafnarkránum. Þar fékk ég sífýlis í fyrsta en ekki síðasta skipti.

En aftur að fótboltanum. Ég hafði merkilega gaman að leiknum. Ég skal ekki fullyrða að ég muni halda með Liverpool, enda vil ég helst aðeins styðja lið í KR búningnum, en ég er kominn með smá taugar til þessa liðs, sem strákurinn þarna sagði að væri merkasta fótboltalið Englands.

Ég verð víst að trúa honum uns annað kemur í ljós.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband